English

Áhrif 12 mánaðar heilsueflingar á hreyfifærni og afkastagetu eldri aldurshópa

Markviss heilsuefling eldri aldurshópa með áherslu á þol- og styrktarþjálfun getur aukið verulega líkamlega afkastagetu þeirra og heilsu. Góð hreyfifærni og bætt afkastageta gerir eldri einstaklingum kleift að sinna athöfnum daglegs lífs lengur og getur þannig haft veruleg jákvæð áhrif á daglegt líf einstaklinga þrátt fyrir háan aldur.

Markmið rannsóknarverkefnisins var að kanna áhrif tólf mánaða fjölþættrar heilsueflingar á hreyfifærni og afkastagetu eldri einstaklinga í tveimur íslenskum sveitarfélögum. Snið rannsóknar var hentugleikaúrtak einstaklinga 65 ára og eldri. Fjöldi þátttakenda voru 362 og voru konur í meirihluta, 225 talsins en karlar 137. Þátttakendur fylgdu tólf mánaða þjálfunaráætlun sem byggðist á daglegri þolþjálfun og styrktarþjálfun tvisvar sinnum í viku. Þjálfun var studd af mánaðarlegum fræðsluerindum um næringu og heilsutengda þætti. Framkvæmdar voru mælingar á hreyfifærni og afkastagetu áður en íhlutun hófst og síðan að lokinni sex og tólf mánaða heilsueflingu. Við mælingar var notast við þekkt próf á sviði öldrunar. Helstu mælingar voru SPPB hreyfifærniprófið, 8 feta hreyfijafnvægi, liðleikamælingar, mæling á vöðvaþoli og 6 mínútna göngupróf. Könnuð var dagleg hreyfing og þátttaka í styrktarþjálfun auk þess sem heilsa var greind með alþjóðlegum spurningalista.

Niðurstöður: Meðalaldur þátttakenda var 73,3 ár og spönnin var 65–94 ár. Meðalaldur kvenna var 72,4 ± 4,8 og karla 74,4 ± 5,4 ár. Hópurinn bætti sig um 0,3 stig í SPPB prófinu (p < 0,001) á 12 mánaða þjálfunartíma. Átta feta hreyfijafnvægi færðist til betri vegar eða úr 5,9 sekúndum við upphafsmælingu í 5,6 sekúndur (p < 0,001). Vöðvaþol þátttakenda, fjöldi armbeygja á 30 sekúndum, fjölgaði úr 16 armbeygjum í upphafi í 20 eftir 12 mánaða íhlutun (p < 0,001). Vöðvaþol þátttakenda, þar sem staðið er úr stól á 30 sekúndum, jókst einnig úr 12 skiptum í tæp 15 eftir 12 mánaða heilsueflingu (p < 0,001). Liðleiki í aftanverðu læri jókst um 2 cm (p < 0,001) og mat á eigin heilsu, sem mæld er í stigum á skalanum 0–100, færðist til betri vegar á rannsóknartíma eða um 11 stig (p < 0,001). Vegalengd sem gengin var í 6 mínútna gönguprófi jókst úr 468 metrum í 504 metra (p < 0,001), án hækkunar á hjartsláttartíðni við lok mælinga. Eftir 12 mánaða heilsueflingu var dagleg hreyfing þátttakenda 23,1 mínútur og hafði aukist um tæpar 10 mínútur frá upphafsmælingu (p < 0,001). Umræða: Niðurstöður allra mælinga færðust til betri vegar og eru sambærilegar nýlegum íhlutunarrannsóknum þar sem komið hefur fram að þjálfun sem samanstendur af styrktar- og þolþjálfun sé ein af helstu leiðum til að viðhalda eða bæta hreyfifærni og afkastagetu eldri einstaklinga. Ályktun: Niðurstöður sýna mikilvægi fjölþættrar heilsueflingar fyrir eldri aldurshópa. Þær gefa vísbendingu um að koma megi í veg fyrir snemmbæra hreyfiskerðingu með markvissri þjálfun svo hinir eldri geti sinnt athöfnum daglegs lífs lengur.

Heilsupistill.pdf

Hlaða niður

Fleiri fréttir